Úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála hefur úrskurðað í máli Símans gegn Póst- og fjarskiptastofnun í ágreiningsmáli um framlag úr jöfnunarsjóði. Komst úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála að þeirri niðurstöðu að kostnaður Símans vegna þeirrar alþjónustukvaðar að veita gagnaflutningsþjónustu með 128 Kb/s flutningsgetu í sveitum á árinu 2005 næmi rúmum 163 milljónum króna.
Á vef Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að Síminn beindi málinu til úrskurðarnefndar þann 4. janúar 2007, þar sem kærð er ákvörðun PFS frá 7. desember 2006 vegna umsóknar Símans hf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna ársins 2005.
Með úrskurði sínum felldi úrskurðarnefndin úr gildi þann hluta ákvörðunar PFS þar sem Símanum hf. eru ákvarðaðar rúmar 18 milljónir króna í framlag úr jöfnunarsjóði vegna umræddrar alþjónustukvaðar.
Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að hafna umsókn Símans um framlag vegna taps á rekstri notendalínukerfis á Vestfjörðum á árinu 2005 sætti ekki kæru til nefndarinnar og stendur því óbreytt.
Úrskurðarnefnd hafnaði aðalkröfu Símans í málinu sem hljóðaði upp á eingreiðslu að fjárhæð rúman milljarð króna.
Varakrafa Símans var að úrskurðarnefndin felldi hina kærðu ákvörðun úr gildi og breytti henni þannig að kostnaður félagsins vegna alþjónustukvaðar á árunum 2000-2005 yrði ákvarðaður eigi lægri en kr. 240.406.206. Jafnframt, að lagt yrði fyrir PFS að gera tillögu til samgöngumálaráðherra um breytt gjaldhlutfall til samræmis við hinn ákvarðaða kostnað, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003. Var þess krafist í báðum tilvikum að væri ekki fallist á tilgreindar fjárhæðir felldi nefndin ákvörðun PFS engu að síður úr gildi og ákvarðaði aðra lægri fjárhæð að mati nefndarinnar.
Á þessa kröfu féllst úrskurðarnefndin að því undanskildu að upphæðin var lækkuð úr rúmum 240 milljónum í rúmar 163 milljónir króna.
Úrskurðarnefnd féllst á það sjónarmið Póst- og fjarskiptastofnunar að afleiðingar þess að félög sæktu ekki árlega um framlög á meðan á verkefnum stæði, heldur biðu þar til þeim væri lokið, væru óheppilegar, samkvæmt vef PFS.
Nefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það að Síminn sótti ekki um framlag úr jöfnunarsjóði fyrr en árið 2005 leiddi ekki til þess að fjárfestingarkostnaður vegna framkvæmda sem fram fóru á árunum 2000-2004 félli niður við ákvörðun framlags ársins 2005. Nefndin taldi að ekki væri að finna slíkt ákvæði í fjarskiptalögum svo óyggjandi væri og að ekki væri unnt að byggja á reglugerðarákvæði sem ekki hefði fullnægjandi lagastoð. Vísað var til þess að túlkun Póst- og fjarskiptastofnunar í hinni kærðu ákvörðun hafi verið mjög íþyngjandi fyrir Símann.
Að lokum lagði úrskurðarnefnd fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að gera tillögu til samgönguráðherra um hækkað gjaldhlutfall fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð til samræmis við hinn ákvarðaða kostnað, sbr. 3. mgr. 22. gr. fjarskiptalaga. Að óbreyttu má því reikna með að gjaldhlutfall það sem fjarskiptafyrirtæki þurfa að greiða til jöfnunarsjóðs hækki verulega á næsta ári.