,Pabbi, af hverju verða sumir pabbar reiðir þegar börnin þeirra segjast vera samkynhneigð?" Það var á þennan hátt sem Eyjólfur Kolbeins, sem er 15 ára, færði það í tal við föður sinn í fyrravor að hann væri samkynhneigður. Faðirinn, Halldór Kolbeins, svaraði á þá leið að pabbarnir reiddust vegna fáfræði og hræðslu við það sem menn ekki þekktu.
Sjálfur varð hann alls ekki reiður. ,,Það er mikilvægt að vera jákvæður og gera þetta auðveldara. Það er nógu margt neikvætt í lífinu. Og eftir að yngri bróðir Eyjólfs greindist einhverfur tek ég engu sem sjálfsögðum hlut. Það er mín heitasta ósk að börnin mín verði hamingjusöm, hvernig sem það verður."
Það að sonurinn væri samkynhneigður kom Halldóri reyndar alls ekki á óvart. ,,Við mamma hans höfðum stundum rætt um að það gæti alveg eins orðið þannig. Hann var svo fíngerður."
Eyjólfur, sem er í 10. bekk, færði málið í tal við föður sinn í kjölfar kynningar í skólanum á ungliðahreyfingu samtaka samkynhneigðra. ,,Hann fór að tala um ungliðastarfið og ég las bara í þetta. Til að koma í veg fyrir að staðan yrði vandræðaleg spurði ég hvort hann vildi kíkja á starfið. Hann var voða feiminn og sagði kannski. Svo ók ég honum á fundinn, fylgdi honum upp og spurði hvort ég mætti skilja guttann eftir. Það urðu allir hálfhissa að sjá pabba fylgja syni sínum," greinir Halldór frá.
,,Pabbi er kallaður ofurpabbinn," tekur Eyjólfur fram.