Á skemmtanalífsheimasíðunni pose.is er að finna bjórauglýsingar fyrir að minnsta kosti þrjár bjórtegundir, nánar tiltekið Bavaria, Miller og Tuborg. Af þessum þremur bjórtegundum er einungis tiltekið við eina, Tuborg, að hér sé um alkóhólfrían bjór að ræða en það er aðferð sem hefur iðulega verið beitt þegar auglýsa þarf áfengi á opinberum vettvangi. Á auglýsingum hinna bjórtegundanna, og á heimasíðunum sem á bak við þær eru, er hins vegar hvergi að finna neinar upplýsingar um að þessi tiltekna tegund fáist án áfengis.
Hákon Óttarsson, framkvæmdastjóri VínTríó ehf. sem flytur inn Bavaria, segir að hingað til hafi menn leyft sér aðeins frjálslegri auglýsingar á Internetinu en þeir gera til dæmis í blöðum. "Netið hefur verið villta vestrið í þessu hingað til. Það er á gráu svæði." Hann bendir þó á að alla jafna auglýsi hann áfengislausan bjór með merkingunni 0,0% en í þetta skipti hafi það misfarist.