Flóttafólk að aðlagast nýjum aðstæðum

Kólumbíska flóttafólkið sem kom til landsins fyrir rúmri viku er nú hægt og rólega að byrja í aðlögunarferlinu sem stendur í eitt ár. Nýlega byrjaði fullorðna fólkið íslenskunám í Alþjóðahúsi og börnin eru að hefja nám í leik-, grunn-, og framhaldsskólum Reykjavíkur.

Í fréttabréfi Rauða krossins kemur fram að flóttamannaverkefnið er samstarfsverkefni stjórnvalda, Rauða krossins, Reykjavíkurborgar og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Reykjavíkurdeild Rauða krossins hefur umsjá með framkvæmd móttökunnar fyrir hönd Rauða krossins og höfðu starfsfólk og sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar meðal annars standsett íbúðir á vegum borgarinnar sem biðu flóttafólksins. Rútufyrirtækið Guðmundur Jónasson ehf. sá um að aka flóttafólkinu til hinna nýju heimkynna eins og það hefur alltaf gert síðan 1956 þegar fyrstu flóttamennirnir komu til Íslands.

Strax daginn eftir komuna heimsóttu stuðningsaðilar Rauða krossins flóttafólkið og sýndu því sitt nánasta umhverfi og fóru til dæmis í Fataflokkunarstöð Rauða krossins þar sem fólkið fékk hlý föt. Alls hafa 58 manns eða sex til sjö fjölskyldur á hverja flóttamannafjölskyldu boðist til að aðstoða flóttafólkið með stuðningi sínum næstu tólf mánuði og hafa sjaldan eða aldrei svo margir tekið þátt í flóttamannaverkefninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert