Innflytjendur einangraðri úti á landi samkvæmt nýrri könnun

Innflytjendur sem búa úti á landi upplifa á stundum mikla félagslega einangrun og finnst erfitt að komast inn í íslenskt ættarsamfélag. Þetta kemur fram í sameiginlegri könnun tólf deilda Rauða krossins á Norðurlandi á stöðu innflytjenda á svæðinu.

Tungumálaerfiðleikar há innflytjendum enn frekar úti á landi þar sem helstu stofnanir sem þeir þurfa að hafa samskipti við eru á þéttbýlisstöðum og tjáskiptin fara oftast fram í síma. Þeir sem ekki hafa fullt vald á íslensku lenda því oft í örðugleikum. Einnig kemur í ljós að erfitt er fyrir fólk sem býr í strjálbýlli byggðum landsins að fá í íslenskukennslu þar sem miðað er við að minnst 10 einstaklingar séu í hverjum hóp.

Um rýnihóparannsókn er að ræða, byggða á viðtölum við innflytjendur sem lýsa upplifun sinni á aðlögun að samfélaginu og búsetu á Norðurlandi. Í skýrslunni koma einnig fram ábendingar rýnihópsins um með hvaða hætti væri hægt að aðstoða innflytjendur á svæðinu að aðlagast landi og þjóð.

Deildir Rauða krossins munu nýta sér niðurstöðu könnunarinnar til að móta ný verkefni í þágu innflytjenda jafnframt því að virkja þennan hóp í starfi Rauða krossins, samkvæmt fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert