Hugmyndir Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um breytingar á tilhögun bótagreiðsla vegna veikinda-, slysa og örorkuréttar, vekja hörð viðbrögð öryrkja. Lagt er til að umsýsla réttindanna verði að hluta á forræði aðila atvinnulífsins. Öryrkjabandalag Íslands telur að með þessu væru Íslendingar að kveðja norrænu velferðarfjölskylduna.
Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalagsins segir fráleitt að þetta gæti gerst annars staðar á Norðurlöndum. "Með þessu nálgumst við hratt ameríska kerfið þar sem hart er gengið að launþegum," segir Sigursteinn í samtali við 24 stundir.
Lagt er til að sameiginlegur sjóður verkslýðsfélaga og vinnuveitenda taki að nokkru við lífeyris- og slysatryggingum af Tryggingastofnun ríkisins. Öryrkjar telja að atvinnulífið væri þá að læsa klónum í velferðarkerfi Íslendinga og kippa stoðum undan jöfnum rétti borgaranna til bóta hvort sem menn hvar eða hvort sem menn séu í vinnu. Hugmyndir ASÍ og SA miði að því að réttindi einstaklinga verði mismikil eftir því hvort þeir eru félagar í stéttarfélagi sem er aðili að þessu nýja kerfi eða ekki. Öryrkjar hafa aflað sér lögfræðiálits þar sem segir að þetta stangist á við meginreglu kjarasamninga, jafnræðisreglu og félagafrelsisákvæði.
Alþýðusamband Íslands er allt annarar skoðunar. Ársfundur sambandsins hefst í dag undir yfirskriftinni "Íslensk velferð í fremstu röð". Tvennt er á dagskrá. Í fyrsta lagi efnahags- og kjaramál, en í öðru lagi norræna velferðarsamfélagið og vinnumarkaðsmódelið. Rætt verður um norræna velferðarsamfélagið í dag.