„Nóbelsverðlaunin sýna að loftslagsbreytingar ógna friði"

Mengunarský yfir París
Mengunarský yfir París AP

Rajendra Pachauri, yfirmaður ráðgjafanefndar SÞ um loftslagsbreytingar (IPCC) sem fær friðarverðlaun Nóbels ásamt Al Gore, sagði í dag á blaðamannafundi að verðlaunin sýndu að Nóbelsverðlaunanefndin teldi að loftslagsbreytingar ógnuðu friði í heiminum. Þá sagði hann enn mögulegt að snúa þróuninni við með samstilltu átaki.

Pachuari er í Japan þar sem hann verður frummælandi á tveggja daga ráðstefnu um umhverfismál. Sagði Pachuari blaðamönnum í dag að veðurfarsbreytingar undanfarinna ára, flóð, stormar, hitabylgjur og þurrkar séu að mestu leyti af mannavöldum. Þá lagði hann áherslu á að álag á umhverfið væri þegar farið að hafa neikvæð áhrif á líf manna, en að lausnir væru þegar til staðar.

„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að sú tækni sem þarf til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er til staðar."

Í nóvember gefur ráðgjafanefndin út nýja 30 síðna skýrslu þar sem áhersla er lögð á valmöguleika fyrir stjórnvöld sem í boði eru í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert