Kirkjuþing 2007 hefst á laugardaginn. Fyrir þinginu liggja 19. mál að þessu sinni. Meðal þeirra má nefna tvær tillögur er lúta að aðkomu kirkjunnar að staðfestri samvist, 8. mál og 15. mál. Báðar leggja til að prestum sem svo kjósa verði veitt heimild til að framkvæma staðfesta samvist. Til grundvallar 8. máli liggur ályktun Kenningarnefndar Þjóðkirkjunnar sem kynnt var í apríl 2006 og hefur hlotið umfjöllun í söfnuðum, á prestastefnu og leikmannastefnu kirkjunnar. Lagt er til að hún verði samþykkt, samkvæmt tilkynningu.
Þá liggur fyrir þinginu tillaga um að stofnuð verði þjóðmálanefnd kirkjunnar sem hafi frumkvæði að og efli opinbera umræðu um samfélagsmál út frá kristnum grunngildum sem styrki faglegan grunn fyrir þá umræðu.
Einnig er lögð fram tillaga um að skipaður verði starfshópur um mótun umhverfisstefnu Þjóðkirkjunnar. Er þetta framhald á undirbúningsvinnu er starfshópur, skipaður af biskupi Íslands, hefur unnið þar sem grunnur hefur verið lagður að umhverfisvænu vinnulagi í söfnuðum landsins.
Tillaga um endurskoðun á löggjöf um Þjóðkirkjuna liggur einnig fyrir. Þar er lagt til að könnuð verði áhrif þjóðkirkjulaganna frá gildistöku þeirra 1. janúar 1998 og metin reynsla af einstökum þáttum þessara laga. Meðal þess sem skoðað yrði er staða Þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu, ákvæði um kirkjuaga og lausn ágreiningsefna, ákvæði um úrskurðar- og áfrýjunarnefndir, ákvæði um val og skipun presta og fleira.
Þá liggur fyrir tillaga um skipun nefndar til að endurskoða og efla upplýsinga- og almannatengsl á vegum Þjóðkirkjunnar. Lagt er til að sérstaklega verði athugað hvort ástæða sé til að koma upp upplýsingadeild á Biskupsstofu sem hafi með þessi verkefni að sýsla.
Rætt um kaup á kapellu á varnarsvæðinu
Fyrir þinginu liggur einnig tillaga er varðar fyrirhuguð kaup á húsnæði á svæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Þjóðkirkjan hefur áhuga á að kaupa kapellu sem reist var þar árið 1985 og nefndist Chapel of Light. Einnig verður skoðað hvort hægt er að festa kaup á íbúðum þessu tengt.Tilgangur með kaupunum er að tryggja Þjóðkirkjunni starfsaðstöðu á þessu nýja íbúðar- og þjónustusvæði og veita íbúum og öðrum kirkjulega þjónustu þar. Einnig er áhugi á að kanna möguleika á stofnun trúarbragðastofnunar þarna í tengslum við skólasvæðið í þeim tilgangi að byggja friðarsetur þar sem áður var herstöð.