Samstarfsslitin útrætt mál

Sjálfstæðisfólk lítur nú á samstarfsslitin í borgarstjórn sem útrætt mál eftir fund stjórna sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík í Valhöll í kvöld. Um 200 manns mættu á fundinn sem haldinn var fyrir luktum dyrum og hélt Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins ræðu og kynnti sjónarmið sín þar.

Geir kvaddi fundarmenn eftir sína ræðu og sagðist að því loknu að hann hefði talið sér skylt að beita sér fyrir því að fólk snéri nú bökum saman og reyndi að loka því máli sem upp kom, þ.e. samstarfsslitunum við Framsókn, og að flokksmenn allir, stjórnir sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík ásamt kjörnum fulltrúum horfðu fram á veginn og endurskipulegðu sig með tilliti til þeirra nýju hlutverka sem flokkurinn hefði nú tekið að sér. „Ég tel rétt að hætta núna að takast á við fortíðina, heldur horfa fram á veginn og mér heyrist að það sé mikil stemning fyrir því."

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti sjálfstæðismanna, sagði fundarmenn hafa talað opinskátt um málið og hafi hann sjálfur rakið það í meginatriðum. "Þetta var mjög hreinskilin og góð umræða," sagði hann. "Borgarstjórnarflokkurinn og ég fengum fullan stuðning og það var enginn sem var að krefjast afsagnar minnar eða einhverra borgarfulltrúa. Þetta var gríðarlega sterkur fundur og hér ríkti miki ákveðni í því að nú stæðu menn þétt saman." Sagðist Vilhjálmur hafa fengið mjög hlýjar móttökur á fundinum sem sér þætti ákaflega vænt um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert