Margt bendir til þess að munntóbaksnotkun sé að aukast hér á landi, sér í lagi meðal karlmanna á aldrinum 18-34 ára. Bann hefur legið við innflutningi og sölu á fínkorna munntóbaki frá árinu 1997, en algengt er að íslenskt neftóbak sé notað sem munntóbak. Í sölutölum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins má sjá að nokkur aukning hefur verið í sölu á neftóbaki.
Lýðheilsustöð hefur látið útbúa vefsvæði þar sem fjallað er um munntóbak og neikvæð áhrif þess – auk þess sem hægt er að taka þátt í vefleik – og var vefurinn kynntur í gær. Um leið var ýtt úr vör verkefni sem miðar að því að kynna vefinn og skaðsemi munntóbaksnotkunar.