Verulegur samdráttur í veltu dagvöruverslana

Velta í dagvöruverslun jókst um 5% í september síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi , en þá er miðað við þá krónutölu sem er í gangi hvert sinn sem mælt er óháð öllum öðrum áhrifum, en minnkaði á milli mánaðanna ágúst og september um 9,4%. Þetta er í fyrsta sinn síðan í apríl að ekki verður vöxtur í veltu dagvöruverslunar á milli mánaða.

Verð á dagvöru hækkaði um 0,6% á milli mánaðanna ágúst og september s.l., en sambærileg verðhækkun á síðasta ári var 1,6% á milli ágúst og september, samkvæmt verðmælingum Hagstofu Íslands. Árstíðarsveiflur í verði virðast því heldur minni nú en í fyrra, samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Sala á áfengi dregst saman um 26%

Sala áfengis minnkaði um 26% á milli mánaðanna ágúst og september á breytilegu verðlagi en minnkaði um 0,8% á milli ára, þ.e. milli september s.l. og sama mánaðar í fyrra. Óvenjumikil aukning var í áfengissölu í sumar, sem skýrir að einhverju leyti þessa miklu lækkun núna. Áfengissala eykst alltaf í tengslum við verslunarmannahelgi í ágúst og minnkar í september, auk þess sem í ágúst voru fimm föstudagar en fjórir í september, samkvæmt tilkynningu.

Samdráttur var einnig í öðrum tegundum smásöluverslunar. Velta í fataverslun minnkaði um 6,6% milli ágúst og september og 9% í skóverslun. Verð á fötum hækkaði um 15,5% á milli sömu mánaða og um 3,7% á skóm.

Vísitala húsgagnaverslana í fyrsta sinn

Velta húsgagnaverslunar minnkaði um 11,9% á milli mánaðanna ágúst og september. Þetta er í fyrsta sinn sem Rannsóknasetur verslunarinnar birtir vísitölu húsgagnaverslana. Vísitalan byggir á veltutölum sem Rannsóknasetrið fær sent frá 13 stærstu húsgagnasölum landsins sem reka 18 verslanir. Áætlað er að markaðshlutdeild þessara verslana nái yfir um 80% markaðarins hér á landi. Innifalið í veltu húsgagnaverslana er húsbúnaður sem sumar þessara verslana selja. Verðvísitala Hagstofunnar, sem notuð er til finna fast verðlag í þessum vöruflokki, tekur bæði til húsgagna og húsbúnaðar.  Meðal þeirra verslana sem veita upplýsingar um veltu eru bæði þær sem sérhæfa sig í húsgögnum fyrir heimili svo og skrifstofuhúsgögnum. Ekki er sundurgreint á milli þessara tegunda.

Samanlögð velta í þeim flokkum smásöluverslunar sem mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar ná til minnkaði um 11,5% á milli ágúst og september á breytilegu verðlagi.

„Langt er síðan svo mikil samdráttur hefur orðið í veltu dagvöruverslunar eins og var á milli ágúst og september. Hér er að nokkru leyti um að ræða eðlilega árstíðarbundna sveiflu, auk þess sem einum fleiri föstudagar voru ágúst en september og ávallt er aukin sala í dagvöruverslun fyrir verslunarmannahelgi í ágúst. Einnig hefur því verið haldið fram að aukinn straumur erlendra ferðamanna að sumri til hafi áhrif á verslun. Þó ber að hafa í huga að töluverð veltuaukning er enn á milli ára, þó nokkuð hafi dregið úr þeim vexti.

Ekki eru merki um að dragi úr einkaneyslu á næstunni: Kaupmáttur launa jókst um 4% frá ágúst 2006 til ágúst 2007, kreditkortavelta heimilanna var næstum 18% meiri fyrstu átta mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra, auk þess sem framtíðarhorfur stjórnenda í stærstu þjónustufyrirtækjum landsins eru afar jákvæðar samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup," samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Sjá nánar um smásöluvísitöluna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert