Fíkniefnin sem fundust um borð í skútu í Fáskrúðsfjarðarhöfn vógu alls um 40 kíló en ekki 60 eins og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá í upphafi.
Misræmið felst í því að töskur sem fíkniefnin fundust í höfðu verið þyngdar, a.m.k. sumar þeirra. Þyngd fíkniefnanna með umbúðum og töskum var um 60 kíló en efnin sjálf voru 20 kílóum léttari. Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar yfirlögregluþjóns voru 24 kíló af amfetamíni í skútunni, 14 kíló af e-töfludufti og um 1.800 e-töflur.
Friðrik Smári sagði að fljótlega eftir að málið kom upp hefði legið fyrir að magn fíkniefnanna var 40 kíló en ekki 60. Aðspurður hvers vegna magntalan hefði ekki verið leiðrétt strax, sagði hann að ástæðan væri að hluta til rannsóknarhagsmunir og auk þess hefðu menn haft um margt annað að hugsa.