Í dag kom út ný þýðing Biblíunnar. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veitti fyrsta eintaki hinnar nýju útgáfu viðtöku fyrir hönd íslensku þjóðarinnar við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni í morgun. Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, sem jafnframt er forseti Hins íslenska biblíufélags afhenti Biblíuna af hálfu félagsins og JPV útgáfu.
Frá upphafi hefur þýðingarstarfið verið stutt dyggilega af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar. Í virðingar- og þakkarskyni fyrir þann stuðning munu biskup og forráðamenn útgáfunnar að lokinni athöfn í kirkjunni, ganga yfir í Alþingishúsið og afhenda þar forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssyni, forsætisráðherra, Geir H. Haarde og dóms- og kirkjumálaráðherra, Birni Bjarnasyni, hina nýju útgáfu að gjöf, að því er segir í tilkynningu.