Landlæknir: Afnám einkasölu ÁTVR mun auka áfengisneyslu

mbl.is/Billi

Landlæknisembættið segir, að niðurstöður rannsókna bendi eindregið til þess, að einkasala ríkisins á áfengi dragi úr neyslu og tjóni sem af henni hlýst og ef einkasölunni sé aflétt aukist heildarneysla áfengis. Alþingi fjallar nú um frumvarp um að einkasala ÁTVR verði aflögð á öðru áfengi en því sem er með meiri vínandastyrk en 22%. Einnig er í frumvarpinu lagt til að áfengisgjald verði lækkað.

Landlæknisembættið vísar m.a. á heimasíðu sinni í bókina Alcohol: No Ordinary Commodity – Research and Public Policy, en þar er fjallað um allar helstu rannsóknir sem nýtast við stefnumótun í áfengismálum. Segir embættið að niðurstöður höfunda bókarinnar renni gildum stoðum undir þá áfengisstefnu, sem hafi verið mótuð á Íslandi og að breytingar á löggjöf um aðgengi og verð á áfengi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir lýðheilsu hér á landi.

Landlæknisembættið segir ljóst, að verði áðurnefnt frumvarp samþykkt muni aðgengi að áfengi aukast og einnig verði það ódýrara. Rannsóknir hafi sýnt fram á, að verð hafi áhrif á neysluna og samhengi sé milli hækkunar áfengisskatta, áfengisverðs og fækkunar vandamála sem rekja megi til áfengisdrykkju.

Þá sé stýring á aðgengi að áfengi einnig algeng leið til að takmarka áfengisneyslu. Rannsóknir á takmörkun aðgengis sýni að takmörkun afgreiðslutíma, fjölda söludaga og sölustaða haldist í hendur við minni neyslu og tjón af völdum hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka