Launafólk fái stærri hlutdeild í aukningu þjóðarverðmæta

Ársfundur Alþýðusambands Ísland krafðist þess í ályktun um launamál, að launafólk fái stærri hlutdeild í aukningu þjóðarverðmæta. Segir í ályktuninni, að þrátt fyrir að gerð kjarasamninga sé viðfangsefni einstakra félaga og landssambanda leggi ársfundurinn áherslu á að í komandi kjarasamningum verði samið um launahækkanir sem tryggi aukinn kaupmátt, sérstaka hækkun lægstu launa, auk þess sem tekið verði af festu á launamisrétti kynjanna.

Jafnframt verði öryggisnet kjarasamninganna styrkt og þannig komið í veg fyrir félagsleg undirboð. Það verði meðal annars gert með því að færa taxta að greiddu kaupi og með því að tryggja að fagleg starfsréttindi launafólks verði virt.

Þá segir í ályktununni, að ársfundurinn telji mikilvægt að aðildarsamtökin standi saman að kröfum, sem varði sameiginlega hagsmuni alls launafólks gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka