Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fyrir að hafa í vörslum sínum tugi skotvopna auk vopnahluta og skotfæra án þess að tryggja viðeigandi geymslu þeirra í læstum hirslum.
Byssurnar fundust í húsnæði sem maðurinn réði yfir á Húsavík. Einnig fundust byssur í húsi í Vogum á Vatnsleysuströnd en þeim hafði verið stolið á heimili mannsins í Norðurþingi.
Staðgengill heilbrigðisfulltrúans á Norðausturlandi kom því á framfæri við lögreglu, að íbúi í húsi á Húsavík hefði tilkynnt um vopn, eiturefni og jafnvel sprengiefni sem væru aðgengileg almenningi, þar sem hver sem væri kæmist inn á neðri hæð hússins, þar sem vopnin og efnin væru.
Lögreglan fór inn í húsnæðið, sem var í eigu þrotabús félags á Húsavík. Þar voru eiturefni, skotfæri og skotvopn á víð og dreif. Maðurinn, sem hlaut dóm í dag var forsvarsmaður félagsins, sem starfaði við meindýraeyðingu.
Tveimur mánuðum síðar var brotist inn heimili mannsins í Norðurþingi og stolið rifflum, haglabyssu, skammbyssu og startbyssum. Lögregla hafði upp á flestum vopnunum í húsi á Vogum.
Í dómnum segir m.a. að geymsluháttur mannsins á verulegum fjölda skotvopna og skotvopnahluta sé óforsvaranlegur og enn ámælisverðari en ella með tilliti til þess að hann eigi að teljast fagmaður í meðferð skotvopna.