Brúardekkið á nýrri brú í Reykjafirði í Ísafjarðardjúpi verður steypt í dag. Í dekkið fara um 365 rúmmetrar af steypu. „Ég veit ekki betur en þetta sé stærsta steypuverkefnið á Vestfjörðum sem gert er í einu lagi“, segir Sveinn Ingi Guðbjartsson, húsasmíðameistari og einn eigenda Vestfirskra verktaka ehf., á Ísafirði.
Að sögn Sveins Inga mun það taka 16-20 menn um það bil sólarhring að klára verkið. Ísfirsku fyrirtækin KNH og Vestfirskir verktakar vinna að gerð nýs vegar sem liggur frá norðanverðum Mjóafirði, yfir fjörðinn um Hrútey, út fjörðinn að sunnanverðu, yfir Vatnsfjörð og Reykjafjörð, og inn Ísafjörð að Hestakleif. Auk vegagerðarinnar er innifalið í verkinu að smíða þrjár brýr, þá stærstu í Mjóafirði sem yrði 130 metra löng stálbogabrú en hinar eru 60 metra brú í Reykjafirði og 10 metra brú við Vatnsfjarðarós. Brúin á Mjóafirði er í smíðum í Kína og væntanleg um áramótin.
Að sögn Sveins hafa framkvæmdir gengið þokkalega. „Það hefur verið fremur leiðinlegt veður sem hefur tafið framkvæmdirnar en að öðru leiti hefur þetta gengið þokkalega.“