Hálslón er orðið fullt og vatn rennur nú á yfirfalli Kárahnjúkastíflu í farveg Jöklu. Þar með eykst aftur tímabundið rennsli árinnar niðri í byggð en búist er við að rennslið geti orðið allt að 100 rúmmetrar á sekúndu um helgina.
Fram kemur á Kárahnjúkavef Landsvirkjunar, að vatn úr Hálslóni byrjaði að skvettast yfir á yfirfalli stíflunnar í gær. Í morgun var rennslið orðið jafnt og þétt og er það enn að aukast því hlýindi eru eystra. Vatnið sem rennur á yfirfallinu fer í þar til gerða rennu og á enda hennar eru steyptir tappar sem tvístra vatninu áður en það fellur á steyptum stöllum eina 60-70 metra niður í gljúfur Jöklu, neðan við Kárahnjúkastífluna.
Rennslið í Jöklu á yfirfalli Hálslóns ræðst fyrst og fremst af veðurfarinu á næstunni en það minnkar síðan smám saman þegar raforkuframleiðsla hefst í Fljótsdalsstöð, snemma í næsta mánuði.
Haft er eftir Haraldi B. Alfreðssyni hjá framkvæmdaeftirlitinu að með þessu hafi enn einum áfanganum verið náð við gerð Kárahnjúkavirkjunar og segja megi, að nú séu öll stíflumannvirkin farin að virka eins og til er ætlast.
Botnrásinni í Hálslóni var lokað fyrr í þessum mánuði og í vikunni var byrjað að hleypa vatni úr lóninu inn í aðrennslisgöng virkjunarinnar.