Erfitt að losna við „skutlið" í borginni

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á síðasta ári var svokallaður heildstæður skóladagur eitt helsta kosningamálið hjá flestum eða öllum framboðum í sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.

Flokkarnir lögðu ríka áherslu á mikilvægi þess að grunnskólar, frístundaheimili, íþróttafélög, tónlistarskólar og fleiri aðilar hefðu samráð um að tvinna saman nám og tómstundir barnanna í átta tíma á dag þannig að vinnudagur þeirra styttist og foreldrarnir losnuðu við hið endalausa skutl sem fylgdi tómstundaiðkun barna sinna.

Markmiðið var að fylgja fordæmi sveitarfélaga á borð við Reykjanesbæ og Seltjarnarnes þar sem reynslan af því að samþætta starfsemi skóla og tómstundastarfs hefur verið góð. Ýmis skref hafa verið tekin í sveitarfélögum á borð við Reykjavík, Kópavog og Hafnarfjörð, bæði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra sem eftir þær, en ljóst er að skutlið er hvergi nærri úr sögunni.

„Að koma á heildstæðum skóladegi fyrir börn í Reykjavík er samvinnuverkefni skóla, íþróttafélaga, listaskóla, skátana og fjölmargra annarra. Þetta er ekki verkefni sem verður leyst af hendi einn tveir og þrír af pólitíkus með töfrasprota," segir Oddný Sturludóttir, nýskipaður formaður Menntaráðs Reykjavíkurborgar. "En þetta er mikilvægt mál sem eykur lífsgæði og samverustundir fjölskyldunnar, minnkar álag barna, og styttir vinnutíma þeirra sem starfavið listkennslu, íþróttaþjálfun eða aðrar tómstundir. Sjálf er ég píanókennari og ef ég starfaði sem slíkur væri vinnutími minn frá hálftvö til sjö og alla laugardagsmorgna. Það er ekki fjölskylduvænt fyrir utan það hvað börnin eru oft þreytt klukkan sjö. Ofan á það bætist svo skutlið."

Oddný gefur ekki upp tímamörk um hvenær heildstæðum skóladegi verði komið á í öllum skólum borgarinnar. "En mín skoðun er sú að við eigum að stefna á það að innan nokkurra ára ættu yngri börnin að geta stundað sitt nám og tómstundir innan skólans, eða í allra næsta nágrenni við hann og vera búin í síðasta lagi klukkan 17. Það er mín framtíðarsýn, og mig grunar að um hana sé þverpólitísk sátt."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka