Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra tilkynnti á fundi í Valhöll í dag að hann hygðist skipa tvær nýjar nefndir, annars vegar um málefni Landspítala í stað þeirrar sem lögð var niður í lok september og laut formennsku Alfreðs Þorsteinssonar, og hins vegar fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Verða nöfn nefndarmanna og formanna tilkynnt eftir helgina að sögn ráðherra.
Nefndirnar eiga að koma með tillögur um hlutverk og stefnu sjúkrahúsanna ásamt því að skoða rekstur og aðra þætti, þar með talið nýtt hátæknisjúkrahús. Guðlaugur Þór segir að nefndarmenn verði m.a. fengnir úr viðskiptalífinu, menn sem hafi reynslu á því sviði sem og öðrum þáttum þjóðlífsins.
Guðlaugur Þór tilkynnti líka nýja nefnd sem hefur það hlutverk að fjalla um aðstöðumál heilbrigðisstofnana sem á að fara yfir þau mál í stærra samhengi en gert hefur verið til þessa. Skal það vera meðal verkefna nefndarinnar að efla og styrkja eftirlit og yfirstjórn heilbrigðisráðherra með uppbyggingu heilbrigðisstofnana og aðstöðu þeirra. Skal hún einnig tryggja góða samvinnu við samtök sjúklinga og aðstandendur.
„Það skiptir máli að skoða málefni heilbrigðiskerfisins í heildarsamhengi,“ segir Guðlaugur Þór. „Það þarf að líta á rekstur Landspítalans og hvað megi betur fara þar. Eins og ég hef nefnt þarf að skoða aðstöðumál spítalanna í víðara samhengi og í þessu tilviki er Landspítalinn ekkert eyland í kerfinu. Það skiptir miklu máli huga að framboði og eftirspurn á hjúkrunarrýmum svo dæmi sé tekið.“
Guðlaugur Þór tilkynnti líka á fundinum að ráðuneyti sitt væri að skoða heilsugæsluna og mismunandi rekstrarform hennar. „Það eru mismunandi rekstrarform á heilsugæslunni og það þarf að skoða hvernig þau hafa reynst til að taka ákvarðanir um framhald á þeirri þjónustu.“