Björgunarsveitir voru í morgun ræstar út í uppsveitum Árnessýslu til leitar að ökumanni bifreiðar sem fannst í skurði skammt sunnan við Stóru Laxá. Ummerki bentu til að bifreiðin hafi farið nokkrar veltur út af Skeiða- og Hrunamannavegi áður en hún lenti í skurðinum og að ökumaður hennar hafi farið frá henni fótgangandi.
Þetta kemur fram á Lögregluvefnum.
Laust eftir klukkan níu í morgun bárust svo upplýsingar um að maðurinn væri kominn til Reykjavíkur, heill á húfi. Leit var þá afturkölluð, en lögreglan á Selfossi biður þá er kunna að hafa orðið vitni að útafakstrinum að hafa samband í síma 480-1010.
Það var um kl. 05:20 sem lögreglan á Selfossi fékk upplýsingar um bifreiðina í skurðinum og samkvæmt upplýsingum sem nú hefur verið aflað fór ökumaður hennar, sem er karlmaður á þrítugsaldri, frá Sumarbústað skammt frá Flúðum um kl. 04:30 í morgun.