Á kirkjuþingi, sem sett var á laugardag, var í dag borin fram tillaga þar sem lýst er yfir stuðningi við ályktun kenningarnefndar kirkjunnar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist. Í ályktuninni er lögð áhersla á að Þjóðkirkjan standi áfram við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu og því ekki gert ráð fyrir að samkynhneigðir geti gengið í hjónaband.
Hins vegar er mælt með því að prestum verði heimilt að staðfesta samvist ef lögum um hana verði breytt þannig að slíkt verði mögulegt. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði er hann flutti tillöguna að þarna væri mun lengra gengið en þekktist í nálægum löndum, eða krafa væri gerð um.
Þá sagði Karl kirkjuna hafa verið beitta miklum þrýstingi um málið og að vegið hefði verið ómaklega að henni. Samhliða tillögu biskups flutti Hulda Guðmundsdóttir tillögu um að prestar verði vígslumenn staðfestrar samvistar. Telja má víst að tillögunum verði vísað í aðra umræðu í dag að lokinni fyrstu umræðu, þá verða greidd atkvæði um tillögurnar síðar í vikunn.