Fleiri konur en karlar útskrifast úr framhaldsskólum

Alls brautskráðust 4832 nemendur af framhaldsskólastigi með 5317 próf á síðasta skólaári. Er þetta fjölgun um 31 nemendur frá fyrra ári, eða 0,7%. Aldrei áður hafa svo margir nemendur útskrifast af framhaldsskólastigi á einu skólaári, að sögn Hagstofunnar. Konur voru nokkru fleiri en karlar eða 52,5% brautskráðra nemenda.

Brautskráningar úr ýmiss konar starfsnámi á framhaldsskólastigi voru 2843. Flestir ljúka námi á sviðunum framleiðsla og mannvirkjagerð eða 1159, en þar á meðal flokkast flestar iðngreinar. Næstflestir luku námi í þjónustugreinum, eða 500 talsins. Brautskráðir nemendur með sveinspróf voru 609, 12 fleiri en skólaárið 2004-2005.

Alls útskrifuðust 2452 stúdentar úr 31 skólum skólaárið 2005-2006, 29 fleiri en skólaárið 2004-2005. Ekki hafa áður útskrifast stúdentar úr þetta mörgum skólum á sama skólaári að sögn Hagstofunnar en skólaárið 2000-2001 voru stúdentar brautskráðir frá 30 skólum.

Körlum meðal nýstúdenta fjölgaði um 38 en konum fækkaði um 9 frá fyrra ári. Skólaárið 2003-2004 fór hlutfall stúdenta sem hlutfall af tvítugum landsmönnum í fyrsta skipti yfir 60% og er nú 61,1%.

Skólaárið 2005-2006 luku 1450 konur stúdentsprófi, 73,3% af fjölda tvítugra kvenna það ár en 1002 karlar, 49,2% af fjölda tvítugra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka