Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, telur það sjálfsagt mál að ræða við Reykjavíkurborg um byggingu sundlaugar í Fossvogsdal og segir að hugmyndin hafi fyrst komið fram 1994.
Gunnar sagði að sjálfstæðismenn í Kópavogi hefðu fyrst sett fram hugmynd um sundlaug á mörkum Kópavogs og Reykjavíkur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1994. "Sundlaugin var á málefnaskránni hjá okkur. Forsagan var sú að við Sigurður [Geirdal] höfðum rætt við þáverandi meirihluta í Reykjavík 1990-94 og við vorum langt komnir með að ganga frá því að þarna yrði byggð sundlaug fyrir kosningarnar '94. Síðan kom R-listinn og vildi ekkert við okkur tala," sagði Gunnar.