Hvítt ský barst frá bílnum

Lögreglan á Akranesi stöðvaði bíl á föstudagskvöldið í venjubundnu eftirliti. Aðrir lögreglumenn á ómerktum bíl fylgdust með þegar bílnum var gefið stöðvunarmerki og sáu afturrúðu opnast og hendi stungið út. Hvítu efni var sturtað úr litlum poka og liðaðist hvítt ský aftur eftir bílnum sem var enn á ferð.

Ökumaður og farþegar voru handteknir og færðir á lögreglustöð. Í fyrstu kannaðist enginn úr bílnum við neitt misjafnt en þegar lögreglumenn höfðu safnað efni, sem sat á bílnum og gert á því efnagreiningu, viðurkenndi farþegi úr aftursætinu að hafa þarna losað sig við kókaín.

Á laugardagskvöld var ökumaður bifreiðar handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann reyndist vera með liðlega 11 grömm af amfetamíni í fórum sínum. Maðurinn viðurkenndi við yfirheyrslu að hafa átt efnið og að hafa neytt fíkniefna áður en akstur hófst.

Annar ökumaður var handtekinn á sunnudeginum grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Prófun lögreglu benti til þess að maðurinn væri undir áhrifum amfetamíns og verður blóðsýni sent til rannsóknar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert