Á fundi bæjarráðs í dag var tekin sú ákvörðun að fela Elliða Vignissyni, bæjarstjóra, að falast eftir 5% hlut í stofnfé sparisjóðsins. Í bókun ráðsins segir jafnframt að bæjarráð líti á það sem skyldu Vestmannaeyjabæjar að gæta hagsmuna samfélagsins í þessari umræðu.
Fjallað er um bókunina á fréttavefnum Eyjar.net en þar segir að bæjarráð styðji stjórn sparisjóðsins og stofnfjáreigendur í því að einskis verði látið ófreistað við að tryggja sem best framtíðarstöðu samfélagsins í Vestmannaeyjum, Sparisjóðs Vestmannaeyja, viðskiptamanna sjóðsins og þeirra gríðarlegu hagsmuna sem felast í öflugum samfélagssjóði.
Með þetta í huga var bæjarstjóra falið að falast eftir kaupum á 5% hlut í stofnfé sjóðsins.
Nýlega var samþykkt á fundi stofnfjáreigenda sjóðsins, að auja stofnfé um einn milljarð og jafnframt, að hámarkshlutur hvers stofnfjáreiganda verði fimm prósent af útgefnu stofnfé.