Hagar segjast vera fylgjandi verðkönnunum, þrátt fyrir ágreining við ASÍ. Segir fyrirtækið í yfirlýsingu, að mikilvægt sé að sá ágreiningur verði leystur enda séu um 2500 starfsmenn Haga aðilar að ASÍ. Hins vegar skipti öllu máli að verðkannanir séu vandaðar og réttar og ASÍ hafi aldrei tekið tillit til athugasemda Haga við verðkannanir sambandsins þrátt fyrir að augljóst sé að ekki sé verið að bera saman sömu eða sambærilegar vörur.
Yfirlýsing Haga er eftirfarandi:
Mál sem rætt hefur verið undanfarna daga og snýr að ágreiningi Haga og ASÍ um verðlagseftirlit er afmarkað. Það hefur átt sér langan aðdraganda og á sér eðlilegar skýringar. Hagar hafa gagnrýnt verðlagseftirlit ASÍ í þó nokkurn tíma, sérstaklega fyrir gæði vinnubragða og úrvinnslu tilkynninga í kjölfar verðkannana. Gagnrýnin hefur m.a. verið sett fram þar sem að um ríkisstyrkt verðlagseftirlit er að ræða. Hagar telja að ríkisstyrkt verðlagseftirlit verði að vera hafið yfir gagnrýni og að vandað sé til vinnubragða með þeim hætti að upplýsingar sem neytendur fá af niðurstöðum séu skilmerkilegar og réttar. Óánægja með vinnubrögð ASÍ hefur verið slík að í júlímánuði í sumar óskuðu Hagar eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir matsmenn fari yfir tilteknar fréttatilkynningar og yfirlýsingar frá ASÍ, sem birtar hafa verið. Í því felst að Hagar opna bækur sínar og matsmenn, sem Héraðsdómur tilgreinir hafa fullan aðgang að gögnum til þess að komast að eigin niðurstöðu. Niðurstaðan mun leiða í ljóst hvort vinnubrögð ASÍ eru vönduð og nákvæm, eða hið gagnstæða.
Hagar tóku nýverið dæmi um mannleg mistök, sem gerð voru við framkvæmd síðustu könnunar verðlagseftirlits ASÍ. Hagar hafa m.a. bent á að í einni verslun var tekin 750 ml. flaska af Berio olifuolíu, en í annarri 1.000 ml. flaska af sömu tegund. Enginn umreikningur á sér stað hjá ASÍ og því spyrjum við, er rétt að bera saman verð á 750 ml. flösku og 1.000 ml. flösku af sömu vöru og draga síðan þá ályktun að ein verslun sé ódýrari en önnur?
Við höfum einnig bent á að starfsmaður ASÍ í einni verslun valdi rauð epli, sem voru ódýrust í Bónus og kostuðu 129 kr./kg., en starfsmaður ASÍ í annarri verslun valdi Jonagold epli, sem kostuðu þar 79 kr./kg. Þar kostuðu rauð epli 130 kr./kg. Íslenskir neytendur voru hinsvegar ekki upplýstir um að Jonagold epli voru ódýrust í Bónus og kostuðu 78 kr./kg. Í þessu ljósi spyrjum við hvort rétt sé að bera saman rauð epli í einni verslun við Jonagold í annari, þegar báðar vörur eru til í báðum verslunum. Ekki síst í ljósi þess að skýrt kom fram í gögnum sem starfsfólk ASÍ hafði undir höndum að um rauð epli var að ræða. Að jafnaði eru 8-10 tegundir af eplum fáanlegar í verslunum Haga, allt að 14 tegundir á svokölluðum "epladögum". Þessar tegundir eru m.a. rauð, gul, græn, Jonagold, Fuji, McIntosh, Granny Smith, Braeburn, Gala, Pink Lady og konfektepli. Verulegur verðmunur er á eplum eftir tegund, gæðaflokki og uppruna. Það er mjög athyglisvert í umfjöllun um þessa athugasemd okkar að ASÍ telji allt í lagi að bera saman rauð epli og Jonagold og segja að það sé sama varan. Ef svo er má draga þá ályktun að í framtíðinni leggi ASÍ áherslu á að skoða t.d. ódýrasta fiskflakið, ódýrasta gosdrykkinn, ódýrasta kjötkílóið, ódýrustu sólarlandaferðina og hugsanlega ódýrasta bílinn, án tillits til tegundar eða gæða. Mikill meiningarmunur er á milli Haga og ASÍ um mikilvægi þessa þáttar.
Til þess að varpa skýrara ljósi á þetta mál má geta þess að Marks & Spencer verslun í London seldi í síðustu viku 16 tegundir af eplum. Breskir neytendur borguðu þar frá 1,49 pundi fyrir hvert kíló af ódýrustu tegundinni, en 3,49 pund fyrir hvert kíló af dýrustu tegundinni. Þetta þýðir að í þessari verslun var ódýrasta tegundin af eplum seld á um 186 krónur hvert kíló, en sú dýrasta á um 436 kr. hvert kíló. Það er því ljóst að verðlag á eplum er hagstætt á Íslandi, svo ekki sé meira sagt.
Þriðja dæmið sem Hagar benda á í síðustu verðkönnun, er sýnu alvarlegast. Það kemur fram í gögnum starfsfólks ASÍ að skoða eigi „Goða hangiálegg - kílóverð". Hangiálegg frá Goða er verðmerkt á 3.678 kr./kg. Innihaldið er lambakjöt, salt, rotvarnarefni E250 og þráavarnarefni E301. Dæmi er síðan um að aðilar gefi afslátt frá merktu verði. Einnig er til fituminna hangiálegg frá Goða, sem er verðmerkt á 3.081 kr./kg. Innihald þess er kindakjöt, vatn, undanrennuduft, salt, sterkja, bindiefni E407, E451, þráavarnarefni E300 og rotvarnarefni E250. Þessi vara er 597 kr./kg. ódýrari, eða rúmlega 16% ódýrari en „venjulegt" hangiálegg frá Goða, enda úr kindakjöti, sem er ódýrara hráefni og einnig með viðbættu vatni.
Í þeim verslunum sem ASÍ gerði síðustu verðkönnun voru báðar tegundir af hangiáleggi til í öllum verslunum. Því er óskiljanlegt að ekki sé valin sama vara í öllum verslunum í verðkönnuninni. Því er það mat Haga að um mannleg mistök sé að ræða, þegar starfsmaður ASÍ velur venjulegt hangiálegg frá Goða í einni verslun og hugsanlega annar starfsmaður ASÍ velur fituminna hangiálegg frá Goða í annarri verslun, þar sem hvert kíló er tæpum 600 krónum ódýrara.
Ágreiningur Haga og ASÍ kristallast meðal annars í því að ASÍ finnst engu máli skipta hvaða tegund af eplum sé skoðuð, né heldur finnst ASÍ skipta máli að Hagar geri tæknilega eða aðferðarfræðilega athugasemd við eitthvað hangiálegg. Við teljum hinsvegar að þessi þáttur skipti mjög miklu máli ef eigi að upplýsa neytendur um verðlag á matvörum. Mat okkar er að það sem ASÍ kallar „aðferðarfræðilegan ágreining" sé fyrst og fremst skortur á vöruþekkingu og ónákvæmni í vinnubrögðum.
Það er mat okkar að mannleg mistök við verðlagseftirlit ASÍ hafi verið of mörg. Þau mistök vegi of þungt til þess að verðlagseftirlitið sé marktækt. Sérstaklega í ljósi þess að verðlagseftirlit ASÍ er ríkisstyrkt og því eðlilegt að gerðar séu ríkar kröfur um vönduð vinnubrögð.
Við höfum ítrekað reynt að koma á framfæri mikilvægi þess að verið sé að bera saman sömu vörur, eða algjörlega sambærilegar vörur. Því miður hefur aldrei verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem við höfum sent ASÍ, þrátt fyrir að augljóst sé að um mannleg mistök sé að ræða og að okkar mati alls ekki verið að bera saman sömu vörur, eða sambærilegar vörur. Dæmin að framan skýra sig sjálf, en því miður eru fleiri athugasemdir við síðustu verðkönnun og eldri kannanir, sem ekki eru tíundaðar hér.
Að lokum er rétt að ítreka að Hagar eru fylgjandi verðkönnunum, þrátt fyrir afmarkaðan ágreining við ASÍ. Hafa ber í huga að um 2.500 starfsmenn Haga eru aðilar að ASÍ og því mikilvægt að sá ágreiningur verði leystur. Hagar leggja áherslu á að viðskiptavinir fái réttar og vandaðar upplýsingar um verðlag og vörugæði. Í því sambandi skiptir öllu máli að verðkannanir séu vandaðar og réttar. Rangar og ónákvæmar upplýsingar um verðlag geta skaðað neytendur eins og sést, ef framangreind dæmi eru skoðuð.
Undir þetta skrifar Finnur Árnason, forstjóri Haga.