Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir að fram hafi komið á fundi sínum með Susilo Bambang Yudhoyono, forseta Indónesíu, orkumálaráðherra, iðnaðarráðherra og ráðherra sjávarútvegsmála í landinu í morgun að auk þess sem Indónesar hafi áhuga á samvinnu við Íslendinga varðandi jarðvarmanýtingu hafi þeir áhuga á samstarfi um álframleiðslu þar í landi með nýtingu grænnar umhverfisorku og nánu samstarfi við Íslendinga varðandi þróun fiskveiða utan grunnsævis.
„Á Indónesíu eru miklar báxítnámur sem þeir hafa áhuga á að nýta til áliðnaðar með grænni umhverfisorku,” sagði Össur er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag. „Þeir hafa einnig áhuga á auknu samstarfi við okkur varðandi þróun fiskveiða en Indónesía samanstendur af 17.000 eyjum þannig að strandlengjan er gríðarlega stór og það er ljóst að þar er mikið um vannýttar fiskitegundir utan grunnsævis. Fyrsta skrefið í samvinnu ríkjanna í sjávarútvegsmálum mun hins vegar felast í því að ég muni beita mér fyrir því að Indónesar geti stundað nám í Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en það geta þeir ekki samkvæmt því fyrirkomulagi sem nú er í gildi.”