Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur nú til rannsóknar tvö mál sem varða meint svik lækna gegn Tryggingastofnun ríkisins, annars vegar er svæfingalæknir grunaður um að hafa gefið út of háa reikninga svo munar a.m.k. 10,5 milljónum en hins vegar er tannlæknir grunaður um að svíkja út greiðslur með fölsuðum reikningum.
Reynir Jónsson yfirtryggingatannlæknir staðfesti í gær að tannlæknirinn hefði verið kærður til efnahagsbrotadeildar í september í fyrra. Að mati TR væru upphæðirnar háar og málið stórt en hann var ekki tilbúinn til að veita nákvæmari upplýsingar um málið enda væri það í rannsókn hjá lögreglu.
Samkvæmt upplýsingum frá efnahagsbrotadeild hefur málið verið sent til lögreglunnar í heimabyggð tannlæknisins sem mun ljúka rannsókn þess.