Fasteignafélagið Sjælsø Gruppe stefnir að því að byggja risastórar turnbyggingar í Kaupmannahöfn fyrir um 25 milljarða króna. Björgólfsfeðgar, Straumur-Burðarás og Birgir Þór Bieltvedt eiga ríflega þriðjungshlut í félaginu.
Fasteignafélagið stefnir að því að byggja gríðarlega mikið í Ørestad, sem er nýlegt hverfi í mikilli uppbyggingu. Meðal þess sem byggja á eru fyrrnefndar turnbyggingar sem bera heitið Copenhagen Towers og byrjað verður á snemma á næsta ári. Þar verða meðal annars hótel, skrifstofuhúsnæði og ráðstefnusalir. Auk þessa hefur Sjælsø Gruppe þegar byggt íbúðarhúsnæði upp á um 18.000 fermetra og stefnt er að uppbyggingu á 20.000 fermetra húsnæði í viðbót.
„Þetta er gríðarlega mikið verkefni og mun setja svip á Kaupmannahöfn alla," segir Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri Samson Properties.
Þá stefnir fasteignafélagið Klasi hf. að því að byggja upp um 20.000 fermetra húsnæði fyrir fimm til sex milljarða. Ingvi Jónsson, framkvæmdastjóri Klasa, segir framkvæmdir hefjast á næsta ári. „Við þróum þarna heilsutengt hótel en auk þess verða þarna ráðstefnusalir. Hótelið leggur áherslu á viðskiptalífið og verður við jaðar byggðar og þar er mikil náttúrufegurð allt í kring. Samt sem áður er nálægðin við miðborgina mikil."