Útistandandi skuldir heilbrigðisstofnana við Landspítala nema 370 milljónum króna. Þetta segir Rúnar Bjarni Jóhannsson, sviðsstjóri fjármálasviðs Landspítalans.
Hann segir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins skulda Landspítalanum mest, eða 196 milljónir. Það eigi þó í sjálfu sér ekki að koma á óvart, enda séu viðskipti spítalans við heilsugæsluna mjög mikil. „Sem hlutfall af viðskiptum við Landspítala skuldar St. Jósepsspítali í Hafnafirði mest, eða 117 milljónir. Þær skuldir eru einnig mjög gamlar og lítið hefur gengið á þær að undanförnu," segir Rúnar. Hann segir stærstan hluta skuldanna vera til kominn vegna þjónustu sem spítalinn veitir heilbrigðisstofnunum.
Fram kom í 24 stundum í síðustu viku að Landspítali skuldaði birgjum, aðallega lyfjafyrirtækjum, tæpan milljarð. Hafa birgjar, sem margir sjá fram á gjaldþrot borgi spítalinn ekki skuldirnar, sumir hverjir hótað því að hætta að stunda viðskipti við Landspítalann, þar til skuldirnar hafa verið greiddar.
Rúnar segir skuld spítalans við birgja enn fara hækkandi og sé upphæðin komin yfir milljarð.