Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, afhenti í dag Menntaskólanum í Kópavogi viðurkenningu Jafnréttisráðs. Er þetta í sextánda skiptið sem viðurkenningin er veitt. Telur Jafnréttisráð, að að Menntaskólinn í Kópavogi sýni gott starf á sviði jafnréttismála og vill með viðurkenningunni hvetja aðra skóla til líkrar starfsemi.
Fram kemur í rökstuðningi, að Menntaskólinn í Kópavogi hafi skýra og virka jafnréttisstefnu gagnvart bæði nemendum og starfsfólki skólans. Markmið jafnréttisáætlunar skólans sé að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla innan skólans og jöfnum tækifærum einstaklinga á sem flestum sviðum, óháð kynferði. Þetta eigi meðal annars við um rétt til starfa, aðstöðu, menntunar og launa fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Enn fremur séu hlutföll kynjanna jöfn á flestum sviðum skólans, hvort sem það er í hópi stjórnenda, annars starfsfólks eða meðal nemenda.
Menntaskólinn hefur tekið þátt í samevrópsku verkefni þar sem leitast er við að gera nemendur meðvitaða um kyn og kynímyndir, hvernig þær mótast og þeim viðhaldið. Þá hefur skólinn staðið fyrir sérstakri jafnréttisviku í mars síðastliðnum þar sem að kennslan hafði jafnrétti kynjanna að inntaki með einum eða öðrum hætti auk metnaðarfullrar dagskrár þar sem fjallað var um jafnrétti kynjanna frá ýmsum sjónarhornum.