Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur leggst alfarið gegn fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum á Hólmsheiði og skorar á borgarstjórn Reykjavíkur að endurskoða aðalskipulagið frá grunni með þá hugsun að leiðarljósi, að finna aðrar lausnir á þróun borgarinnar en að ganga á það verðmæta útivistarsvæði, sem skógi vaxnar Austurheiðarnar sé fyrir borgarbúa.
Skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti í ágúst, að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi athafnasvæðis á Hólmsheiði. Svæðið er staðsett norðan Suðurlandsvegar á milli Hafravatnsvegar og hesthúsasvæðisins í Almannadal og er heildarstærð þessa nýja athafnasvæðis um 170 hektarar.
Stefnt var að því að deiliskipulagsferlinu verði lokið í nóvember og lóðunum úthlutað fljótlega eftir það.