Unga kynslóðin íhaldsöm og bakslag komið í valdahlutfall kynjanna

Í dag er Kvennafrídagurinn og stendur Femínistafélag Íslands fyrir femínistaviku í tengslum við þennan dag. Í dag mun Jafnréttisráð veita sína árlegu viðurkenningu á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu klukkan þrjú og sömuleiðis mun Jafnréttissjóður úthluta styrkjum til rannsókna á sviði jafnréttismála.

Tvær ráðstefnur um jafnréttismál verða haldnar í dag. Ráðstefnan, Erum við hrædd við jafnrétti? fer fram í ráðstefnusal Keilis á Keflavíkurflugvelli, Jafnrétti og skóli, sem jafnréttisnefnd Kennaraháskólans stendur fyrir og fer fram í Skriðu, fyrirlestrasal KHÍ. Í kvöld verður svo kvennas(t)und í Vesturbæjarlauginni, þar sem ÍTR býður konum ókeypis í sund og sturtusöng milli 19 og 22.

Á morgun stendur Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands fyrir hádegisrabbi um Doris Lessing, nýbakaðan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Það er Sigfríður Gunnlaugsdóttir, bókmenntafræðingur, sem heldur erindið sem hún kallar “Að hafa töglin og hagldirnar: Doris Lessing og femínisminn”.

Erindið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar kl. 12-13.

Síðar sama dag stendur jafnréttisnefnd Kópavogs fyrir málþingi um konur í sveitarstjórnum, í tilefni af því að nú eru 50 ár liðin frá því að fyrsta konan varð sveitarstjóri á Íslandi, en það var Hulda Jakobsdóttir sem var bæjarstjóri í Kópavogi. Málþingið heitir “Ég þori get og vil!” og fer fram á neðri hæð Gerðarsafns í Kópavogi.

Í fréttatilkynningu frá Femínistafélagi Íslands segir að á föstudagsmorguninn hafi staðið til að hafa fund með handhöfum bleiku steinanna, en þeir eru hvatningarverðlaun Femínistafélagsins. Handhafar bleiku steinanna í ár eru þingmenn norðvesturkjördæmis, en þegar verðlaunin voru afhent sat engin kona á þingi fyrir kjördæmið. Vegna kjördæmaviku hjá Alþingi verður að fresta þessum fundi um viku þannig að hann verður haldinn föstudaginn 2. nóvember.

Á laugardag, 27. október lýkur Femínistavikunni. Þá stendur Femínistafélagið fyrir ráðstefnunni “Kynlaus og litblind? Samræða um margbreytileika”. Þar kemur saman fólk úr ýmsum áttum, sem á það sameiginlegt að vera virkt í einhvers konar jafnréttisbaráttu, hvort sem er út frá kyni, kynhneigð, uppruna, fötlun, eða öðru.

Ráðstefnan er haldin í tilefni af Evrópuári jafnra tækifæra með styrk frá félagsmálaráðuneytinu. Þarna gefst tækifæri til að hitta fólk, sem hefur áhuga á réttlátara samfélagi.

Um kvöldið verður svo femínistateiti á efri hæð Café Viktors, þar sem femínistar eru hvattir til að stíga á stokk og láta í sér heyra.

feministinn.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert