Velferðarráð leggst gegn frumvarpi um aukið frelsi í áfengissölu

Velferðarráð Reykjavíkurborgar varar við hugmyndum um aukið frelsi í áfengissölu, eins og lagt sé til í nýju frumvarpi sem nú er til meðferðar á Alþingi Íslendinga. Í samþykkt ráðsins á fundi í dag er vísað til þess að rannsóknir í Svíþjóð, Finnlandi, Bandaríkjunum og Kanada sýni fram á margföldun á neyslu þegar aðgengi sé aukið með afnámi einkasölu.

Í bókun ráðsins segir, að þessar rannsóknir hafi ekki verið hraktar og ekki hafi verið hafnað tengslum áfengis og félagslegs vanda. Þá leggi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áherslu á, að mikil áfengisneysla skaði heilsu og samfélag og auki á ýmsan hátt félagslegan vanda. Líklegt sé að þei,r sem muni nýta sér aukið aðgengi að áfengi séu þeir sem síst skyldi. Afleiðingarnar muni bitna á börnum og ungmennum sem nú þegar búi við erfið uppeldisskilyrði vegna áfengisneyslu forráðamanna sinna.

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarfélög muni setja takmarkanir á sölu áfengis og hafa eftirlit með áfengisverslun. Flutningsmenn frumvarpsins hafa þó ekki rætt við Reykjavíkurborg um hvernig eigi að sinna þessum málum og taka á þeim vanda sem aukin áfengisneysla mun óhjákvæmilega leiða af sér. Engar ráðstafanir hafa verið kynntar sem geta unnið gegn aukinni áfengisneyslu. Þá hefur ekki verið talað um hvort ríkið muni styðja sveitarfélög fjárhagslega til að sinna umræddu eftirliti," segir m.a. í samþykktinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka