9½ árs fangelsi fyrir fíkniefnasmygl

Hæstiréttur þyngdi fíkniefnadóma.
Hæstiréttur þyngdi fíkniefnadóma. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur dæmdi í dag þrjá karlmenn í fangelsisvist fyrir að smygla 15,2 kílóum af amfetamíni og 10,3 kílóum af kannabis til landsins með það fyrir augum að selja efnið. Sá sem þyngsta dóminn hlaut, Ólafur Ágúst Hraundal Ægisson var dæmdur í 9½ árs fangelsi, Hörður Eyjólfur Hilmarsson var dæmdur í 7 ára fangelsi og Ársæll Snorrason í 5 ára fangelsi. Dómarnir í Hæstarétti voru í öllum tilfellum þyngri en í héraðsdómi.

Mennirnir voru ásamt fjórða manninum, sem undi 6 ára fangelsisdómi héraðsdóms, fundnir sekir um að hafa smyglað fíkniefnunum til landsins í bensíntanki BMW-bíls sem þeir fluttu hingað frá Belgíu. Tollverðir fundu kannabisefnið og 13.265,94 grömm af amfetamíninu í eldsneytistanki bifreiðarinnar við leit daginn eftir að bíllinn kom til landsins í april á síðasta ári.

Hæstiréttur segir, að brotin, sem mennirnir frömdu, eigi sér fáar hliðstæður í dómaframkvæmd að því er varðar magn fíkniefna og sakborningarnir eigi sér engar málsbætur.

Fram kemur að Ólafur Ágúst var árið 2000 dæmdur í níua ára fyrir fíkniefnasmygl en honum var veitt reynslulausn árið 2004. Var hann enn á skilorði þegar hann framdi brotið á síðasta ári.

Þá kemur fram í dómnum, að Ársæll var árið 2000 dæmdur í 4 ára fangelsi í Hollandi vegna innflutnings þangað á 15.794,2 grömmum af kókaíni. Hann afplánaði 2 ár af þeim dómi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert