Hæstiréttur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfu Ásatrúarfélagsins, sem krafðist þess að fá greiðslur úr ríkissjóði til samræmis við þjóðkirkjuna. Taldi Hæstiréttur, að verkefni Ásatrúarfélagsins og skyldur gagnvart samfélaginu yrðu ekki borin saman við lögboðin verkefni og skyldur þjóðkirkjunnar.
Ásatrúarfélagið taldi að í því fælist ólögmæt mismunun að þjóðkirkjan fengi að lögum meiri greiðslur úr ríkissjóði en önnur trúfélög. Vísaði félagið m.a. til framlaga úr ríkissjóði, sem rynnu annars vegar í jöfnunarsjóð sókna og hins vegar í kirkjumálasjóð.
Hæstiréttur vísaði til þeirra lögbundnu verkefna sem þjóðkirkjunni væri falið meðal annars með ákvæðum laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, og þeirrar staðreyndar að starfsmenn þjóðkirkjunnar væru opinberir starfsmenn með réttindi og skyldur sem slíkir gagnvart öllum almenningi. Ásatrúarfélagið væri hins vegar skráð trúfélag samkvæmt lögum og í þeim væru engin sambærileg ákvæði sem kvæðu á um starfsemi og réttindi og skyldur starfsmanna þeirra.
Því fælist ekki mismunun í því mati löggjafans, að ákveða framlög til þjóðkirkjunnar úr ríkissjóði umfram önnur trúfélög og þar með væri ekki brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.