„Gaman verður að sjá Samfylkinguna standa við stóru orðin um auðlindir í eigu almennings," segir Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknar, og segir þau hljóma vel en ganga illa upp.
Um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til sölu á orkufyrirtækjum ríkisins segir hún: „Á Alþingi í síðustu viku sagði formaðurinn að Landsvirkjun yrði ekki seld á kjörtímabilinu. Í áramótagrein í Morgunblaðinu fyrir tæpum tveimur árum sagði hann rétt að selja fyrirtækið! Sú yfirlýsing leiddi til þess að kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar drógust um ár." Valgerður segist ekki vilja einkavæða Landsvirkjun, þrátt fyrir ummæli um hugsanlega aðild lífeyirssjóða að fyrirtækinu. En erlend orkufyrirtæki geti hvenær sem er ráðist í virkjanir hér á landi, hver sem eigi Landsvirkjun, sem augljóslega verði fljótlega háeffuð. Valgerður Sverrisdóttir ræðir um orkuiðnaðinn og regluverkið í 24stundum í dag.