Borgarráð leggst gegn því að heimila nektardans

Borgaryfirvöld vilja sporna gegn rekstri nektarstaða í borginni þar sem …
Borgaryfirvöld vilja sporna gegn rekstri nektarstaða í borginni þar sem almannahagsmunir séu tvímælalaust í húfi. Reuters

Borgarráð leggst gegn því að heimilaður verði nektardans á veitingahúsunum Club Óðal, Vegas og Bóhem í tillögu sinni að umsögn um rekstrarleyfi þessara staða, en gerir það að tillögu sinni að stöðunum verði veitt rekstrarleyfi að öðru leyti. Vegna andmælaréttar rekstraraðila veitingahússanna var afgreiðslu tillögunnar frestað um tvær vikur á fundi borgarráðs í dag.

Fram kemur að í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtihald sé lagt bann við að boðið sé upp á nektarsýningar á veitingastöðum eða með öðrum hætti gert út á nekt starfsmanna eða annarra á staðnum nema með sérstakri undanþágu. Rekstraraðilar veitingahúsanna þriggja sæki um slíka undanþágu í rekstrarleyfisumsókn sinni.

Þá segir í tillögunni að sérfræðingar í kynferðisofbeldi hafi sýnt fram á að í skjóli nektardansstaða þrífist gjarnan vændi auk þess sem erfitt sé að ganga úr skugga um hvort þær stúlkur sem þar starfi séu til þess neyddar eða ekki. Borgaryfirvöld hafi tekið þessar ábendingar alvarlega og vilji sporna gegn rekstri nektarstaða í borginni enda séu þar tvímælalaust almannahagsmunir í húfi.

Í fyrri umsögnum borgarráðs frá 23. ágúst var ekki lagst gegn því að umrædd veitingahús fengju rekstrarleyfi enda væri staðsetning þeirra og afgreiðslutími innan marka reglna borgarinnar. Í umsögnunum var þó vísað til nýlegrar umsagnar lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins um veitingastaðinn Goldfinger í Kópavogi og því beint til hans að hafna einnig heimild til að sýna nektardans í atvinnuskyni á umræddum veitingastöðum. Lögreglustjóri fór í framhaldi af umsögninni fram á aðra umsögn borgarráðs þar sem skýrt kæmi fram hvort umsagnaraðili samþykkti eða legðist gegn því að leyfi væri veitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert