„Það er afskaplega gaman að fá að verða svona gömul og hafa fengið að virða fyrir sér heiminn svona lengi og sjá hvað hann hefur breyst. Þetta er allt annar heimur en þegar ég var ung en hann er alltaf ágætur," segir söngkonan, textahöfundurinn og lagahöfundurinn Ingibjörg Þorbergs sem er áttræð í dag.
Ingibjörg segist hafa átt einstaklega góðan feril. Hún segir að starfið hafi alltaf skipt sig gríðarlega miklu máli. „Ég gifti mig til dæmis seint af því ég mátti aldrei vera að því. Ég var hátt á fimmtugsaldri þegar ég gifti mig loksins. Ég hafði verið trúlofuð áður ágætum manni en hann var ekkert hrifinn af því að ég væri í tónlistinni því hún tók svo mikinn tíma. Ég gat svosem ekkert láð honum það. Svo giftist ég dásamlegum manni sem vann á útvarpinu, Guðmundi Jónssyni píanóleikara. Við vorum mjög hamingjusöm og erum enn. Mér finnst ég hafa komið miklu í verk sem listamaður. Mér hefur alltaf fundist ég verða að semja lög, annars hefði ég ekki frið í sálinni. En reyndar hef ég ekki samið nema tvö lög á þessu ári."