„Dýrasta kremið hjá okkur er Radiance-kremið frá La Prairie á 45.500 krónur. Þetta merki hefur alltaf verið það dýrasta, en nú eru önnur merki farin að færa sig upp á skaftið með lúxuskremin," segir Kristín Einarsdóttir, eigandi Sigurbogans, aðspurð um aukningu snyrtivara á himinháu verði. Síðustu árin hafa dýrar snyrtivörur rutt sér til rúms og í dag telst vart til tíðinda þegar konur fjárfesta í kremum fyrir tugi þúsunda.
„Konur átta sig á því að þær eru með betri krem og meiri virkni í lúxuskremunum. Það er ekki bara skellt á þetta dýru verði, heldur eru rannsóknir á bak við kremin og dýr hráefni. Þær sem nota þessi krem vita að hverju þær ganga og velja þau því frekar," segir Kristín en tekur fram að margar haldi sig þó við ódýrari tegundir.