Tillaga um þjóðkirkjuna og staðfesta samvist var samþykkt á Kirkjuþingi í dag. Í tillögunni, sem er að meginefni til samhljóða upphaflegri tillögu biskups Íslands, segir að ef lögum um staðfesta samvist verði breytt þannig að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist þá styðji Kirkjuþing það, að prestum þjóðkirkjunnar, sem séu vígslumenn að lögum, verði það heimilt.
Í breytingartillögu, sem kom frá allsherjarnefnd þingsins, var setningunni, „sem eru vígslumenn að lögum" bætt inn í upphaflegu tillöguna. Jafnframt var dregin til baka önnur tillaga, sem lá fyrir Kirkjuþingi, um að prestum verði heimilt að vígja í staðfesta samvist, verði trúfélögum veitt slík lagaheimild.
Talið var við atkvæðagreiðslu og var málið samþykkt samhljóða með 27 atkvæðum, einn þingfulltrúi sat hjá og einn var fjarverandi vegna veikinda að því er kemur fram á fréttavef Þjóðkirkjunnar.
Kirkjuþing lýsir í greinargerð með samþykktinni stuðningi við meginatriði ályktunar kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist. þá er tekið þar fram að þingið standi við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu.
Ef lögum um staðfesta samvist verður breytt þannig að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist þá styður Kirkjuþing það hins vegar að prestum Þjóðkirkjunnar, sem eru vígslumenn að lögum, verði það heimilt. Kirkjuþing leggur þó áherslu á að frelsi presta í þessum efnum verði virt.