Ný Bónusverslun verður opnuð í Garðabæ á laugardag klukkan 10. Er verslunin er í sama húsi og Max á sama svæði og verslun IKEA. Er þetta fyrsta Bónusverslunin í Garðabæ en verslanir Bónus eru nú 25 talsins. Tveimur litlum verslunum var lokað í sumar.
Verslunin í Garðabænum verður með nokkuð hefðbundnu Bónussniði þar sem boðið verður upp á alla helstu vöruflokka í matvöru og sérvöru eftir því sem pláss leyfir. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, segir að verslunin sé um 1200 fermetrar að stærð með göngukælum fyrir mjólk og kjöt og grænmeti og ávexti.
Guðmundur segir að í þessari verslun verði áfram þróað rafrænt verðmerkikerfi sem eigi að minnka hættuna á röngum verðmerkingum.
Í tilefni að opnun verslunarinnar í Garðabæ gefur Bónus íþróttafélaginu Stjörnunni eina milljón króna.