Endurskoðuð fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2007 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 23. október sl. Niðurstöðutölur í rekstri og fjárfestingum eru í samræmi við upphaflega fjárhagsáætlun. Gert er ráð fyrir að bæjarsjóður skili um 2,1 milljarði króna í rekstrarafgang. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Helstu frávik eru hækkun heildartekna um 480 milljónir króna, þar sem munar mestu um hærri útsvarstekjur, en rekstrarniðurstaðan er engu að síður svipuð vegna hækkunar gjalda, einkum á sviði fræðslumála, félagsþjónustu og samgangna. Framlög til tónlistarskóla hafa verið hækkuð, ráðist í aðgerðaáætlun í leikskólamálum til að ráða bót á manneklu og börn og unglingar í Kópavogi ferðast gjaldfrjálst með Strætó bs.
Fjárfestingar jukust á árinu umfram áætlun sem nemur u.þ.b. 2 milljörðum króna. Kópavogsbær tók eignarnámi 864 ha lands í jörðinni Vatnsenda. Jafnframt var aukið við framkvæmdir við íþróttamannvirki í bænum, stúkuna á Kópavogsvelli og fjölnota íþrótta- og tónlistarhúsið Kórinn við Vallarkór, sem tekin voru í notkun í ár, auk byggingarframkvæmda við Sundlaug Kópavogs.
Endurskoðaða fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2007 má finna á heimasíðu bæjarins, www.kopavogur.is (stjórnsýsla/fjárhagsáætlanir/ársskýrslur).