RÚV sýknað af bótakröfu vegna heimildarmyndar um morð

Hæstiréttur hefur staðfest þann dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, að sýkna beri Ríkisútvarpið af bótakröfu aðstandenda manns, sem ráðinn var bani á bensínstöð í Reykjavík árið 1990. Heimildarmynd um morðið var sýnd í Sjónvarpinu 2002 og töldu aðstandendur mannsins að í myndinni hefði verið vegið harkalega að friðhelgi einkalífs þeirra.

Í Hæstaréttardómnum er ekki fjallað efnislega um bótakröfuna heldur er Ríkisútvarpið sýknað vegna aðildarskorts. Kvikmyndafélagið Hugsjón ehf. framleiddi sjónvarpsþáttinn. Það félag var tekið til gjaldþrotaskipta en áður hafði nafni félagsins verið breytt í Brautarholt 8 ehf. Þrotabúið var eignalaust og engar bætur þangað að sækja.

Aðstandendurnir höfðuðu málið upphaflega meira en tveimur árum eftir sýningu sjónvarpsþáttarins og beindu málsókninni þá að Ríkisútvarpinu og Brautarholti 8 ehf. Þá hafði bú Brautarholts 8 verið tekið til gjaldþrotaskipta og þrotabúið tekið við aðild málsins. Því var síðar vísað frá dómi.

Hæstiréttur segir, að ekki sé hægt að skýra útvarpslög þannig, að ógjaldfærni eða andlát þess, sem beri ábyrgð á efni, geti leitt til þess að ábyrgð, sem ekki var fyrir hendi í upphafi, verði síðar lögð á útvarpsstjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert