sudurland.is.">

Vilja stækka Hraunið í stað Hólmsheiðar

Litla Hraun.
Litla Hraun. mbl.is/Ómar

Fangaverðir á Litla-Hrauni skora á stjórnvöld að fjölga fangelsisplássum á Eyrarbakka, í stað þess að ráðast í stórfellda uppbyggingu á Hólmsheiði í Reykjavík þar sem stendur til að byggja fangelsi með sextíu plássum. Þetta kemur fram á sunnlenska fréttvefnum sudurland.is.

Fram kemur að fangaverðirnir segi að tuttugu fangapláss sé yfirdrifið nóg á höfuðborgarsvæðinu. Hin fjörtíu plássin ætti að færa á Litla-Hraun. Slíkt sé hagkvæmara og tryggi góða þjónustu við fanga. Einnig er lagt til að Fangelsismálastofnun verði flutt í Árborg.

„Fangelsismálastofnun á góð byggingasvæði í kring um Litla-Hraun og innan öryggisgirðingar þannig að byggingarkostnaður verður minni en á öðrum stöðum. Kostnaðinn mætti fjármagna með sölu á verðmætu byggingarsvæði í grennd við fangelsið á Litla-Hrauni," segir í áskorun fangavarðanna.

Þá er jafnframt bent á að starfsaldur á Litla-Hrauni sé hár og flestir fangavarðanna búi í næsta nágrenni við fangelsið. Gríðarlegt öryggi fylgi því að hafa starfsmenn svo nálægt þegar neyðartilfelli koma upp.

Fangelsismálayfirvöld segja á hinn bóginn nauðsynlegt að hafa fangelsi á höfuðborgarsvæðinu til þess að vista gæsluvarðhaldsfanga nær vinnustað rannsóknarlögreglunnar og dómsstóla. Í nýju fangelsi sé ennfremur gert ráð fyrir sérstakri afeitrunar- og sjúkradeild sem þarfnist sérstaks umhverfis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert