„Byrjunin hjá okkur er að ráðast inn á Þýskalandsmarkað sem við erum mjög heitir fyrir," segir Ívar Ívarsson, gítarleikari hljómsveitarinnar Wulfgangs, en sveitin var nýverið valin til að vera fulltrúi Íslands í Polar Zoo-tónleikaferðinni í desember. Er henni ætlað að kynna norræna rokktónlist. „Þetta er stór markaður og öflugt að komast þarna inn. Svo náttúrlega segir það sig sjálft að við vonumst til þess að nafnið Wulfgang eigi eftir að vekja einhverja eftirtekt þarna."
Ásamt Wulfgang spila fjórar aðrar hljómsveitir fyrir rokksveltar þjóðir Evrópu á hátíðinni. Það eru sveitirnar Last Days of April, Kashmir, Ida Maria og Desert Planet. Polar Zoo mun standa fyrir tónleikum í bæði Þýskalandi og Austurríki en einnig er mögulegt að túrinn nái að teygja anga sína til Sviss.