Alcoa Fjarðaál segist í yfirlýsingu harma, að við uppsagnir tveggja starfsmanna í síðustu viku hafi verklagsreglum ekki verið fylgt út í hörgul. Brugðist hafi verið við til að tryggja að þeim verði fylgt í framtíðinni, komi til svipaðra aðstæðna.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
Eðli málsins samkvæmt getur Alcoa Fjarðaál ekki rætt efnislega einstakar uppsagnir. Fyrirtækið leggur mikið upp úr góðum starfsanda og öruggu vinnuumhverfi og hefur innleitt margar nýjungar á því sviði hér á landi. Á stórum vinnustað á borð við Fjarðaál, þar sem starfa hátt í fjögur hundruð manns, er hins vegar ljóst að því miður verður einstaka sinnum ekki komist hjá því að segja upp starfsmönnum, af ýmsum ástæðum. Það er stór ákvörðun að segja fólki upp störfum og ljóst að ekki er gripið til slíkra aðgerða nema að vel ígrunduðu máli. Hjá fyrirtækinu liggja fyrir skýrar verklagsreglur um hvernig uppsögnum skuli háttað, meðal annars til að tryggja öryggi starfsmanna.
Fyrirtækið harmar að við uppsagnir tveggja starfsmanna í síðustu viku var þeim verklagsreglum ekki fylgt út í hörgul. Brugðist hefur verið við til að tryggja að þeim verði fylgt í framtíðinni, komi til svipaðra aðstæðna, enda lítum við svo á að góðir starfsmenn og vinnuandi séu mikilvægasta auðlind fyrirtækisins.
Yfirlýsingar Sverris Albertssonar, framkvæmdastjóra Afls starfsgreinafélags, þess efnis að uppsagnirnar séu ætlaðar til að skapa óöryggi á vinnustaðnum eru algjörlega úr lausu lofti gripnar.