Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað tvo fyrrverandi ritstjóra DV, þá Björgvin Guðmundsson og Pál Baldvin Baldvinsson, af kröfu framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja um að ummæli í fyrirsögnum og frétt, sem birtust í blaðinu, yrðu dæmd dauð og ómerk.
Um var að ræða fyrirsögn sem birtist í janúar á síðasta ári þar sem sagði, að framkvæmdastjórinn hefði beðið bréfbera í Keflavík að njósna um íbúa. Í frétt sem fylgdi sagði, að framkvæmdastjórinn hefði sent bréfberum í Keflavík bréf þar sem hann bað þá um að skrá hjá sér á hvaða heimilinu í bænum þeir yrðu varir við hunda. Magnús byggði á því að umfjöllun DV hefði verið sérlega særandi og ærumeiðandi og fór hann fram á tvær milljónir króna í miskabætur.
Dómurinn segir, að framkvæmdastjórinn hafi ekki hafa sýnt fram á að ritstjórarnir fyrrverandi hafi í umfjöllun sinn í DV gerst sekir um ólögmæta árás á æru hans og aðdróttun eða tilefnislaus brigsl. Þá hafi ritstjórarnir ekki heldu farið mörk tjáningarfrelsis með ummælunum og ummælin hafi ekki haft í för með sér ólögmæta meingerð gagnvart framkvæmdastjóranum.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að ráðagerðir Magnúsar hafi varðað skráningu og vinnslu á viðkvæmum persónuupplýsingum. „Verður að telja að það orki mjög tvímælis hvort slík upplýsingaöflun sem lögð var til í erindi stefnanda standist lög.“ Einnig segir að augljóst sé að fréttin hafi átt fullt erindi við almenning.