Á fundi strandríkja um stjórnun síldveiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, sem lauk í Lundúnum í gær, náðist samkomulag um að heildaraflamark verði 1.266.000 tonn árið 2008. Samkvæmt samkomulaginu verður íslenskum skipum heimilað að veiða 183.697 tonn.
Í fréttatilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu kemur fram að niðurstaða strandríkjanna er í fullu samræmi við vísindaráðgjöf Alþjóða Hafrannsóknaráðsins (ICES) og þá langtíma stjórnunaráætlun sem sett hefur verið og tryggja á sjálfbæra nýtingu stofnsins til lengri tíma. Niðurstaða vísindamanna er sú að staða stofnsins sé áfram mjög góð og er því um að ræða litla breytingu á leyfilegum heildarafla milli ára, eða einungis 1,09%.
Hlutur annarra aðila strandríkjasamningsins er eftirfarandi:
Evrópusambandið 82.417 tonn
Færeyjar 65.326 tonn
Noregur 772.260 tonn
Rússland 162.301 tonn